Guðríðarkirkja í Grafarholti var vígð af biskupi Íslands á öðrum sunnudegi í aðventu, 7. desember 2008. Myndir úr vígslunni.

Bygging kirkjunnar

Ákveðið var að leita nýrra leiða við byggingu Guðríðarkirkju, sem að tryggði söfnuðinum fagurt guðshús þar sem jafnframt væri gætt mikillar hagkvæmni. Kirkjuráð með biskup Íslands í broddi fylkingar hafði forgöngu um slíkt samstarf og er það í fyrsta sinn sem yfirstjórn Þjóðkirkjunnar og einstök sókn vinna svo náið saman að kirkjubyggingu. Hefur Jöfnunarsjóður sókna styrkt kirkjubygginguna myndarlega. Guðríðarkirkja er fyrsta kirkja á Íslandi sem byggð er í lokuðu alútboði. Fjórir verktakar tóku þátt í útboðinu og varð Sveinbjörn Sigurðsson hf. hlutskarpastur.

Arkitektar kirkjunnar eru Þórður Þorvaldsson og Guðrún Ingvarsdóttir hjá Arkþingi ehf . Með Arkþingi ehf. unnu Landhönnun, Almenna Verkfræðistofan, Fagtækni og Trivium ráðgjöf að gerð tillögunnar. Yfirsmiður kirkjunnar er Finnur Jóhannsson. Við hönnun kirkjunnar var farin sú óvenjulega leið að ramma kirkjuskip og safnaðarsali inn með tveimur görðum. Austurgarðurinn myndar því eins konar þrívíða altaristöflu handan við altarið sem tekur breytingum í takt við árstíðirnar og veitir jafnframt birtu og dýpt inn í kirkjurýmið.

Garðarnir eru hannaðir af Hermanni Ólafssyni hjá Landhönnun svo og Pétri Jónssyni og Höllu Hrund Pétursdóttur hjá Landark. Reynir Sýrusson húsgagnahönnuður hefur hannað flestar innréttingar hússins í samráði við arkitekta hússins og eru stólar, altari, grátur og sálmatafla smíðuð hjá Beyki ehf. Innviðir kirkjunnar eru úr birki sem gefur henni hlýjan og léttan blæ.

Í kirkjunni eru tveir garðar, altarisgarðurinn Geisli – sem kemur í stað altaristöflu – og inngarðurinn Lilja. Garðarnir eru nefndir eftir tveimur helgikvæðum frá miðöldum.

Nafngift kirkjunnar

Kirkjan heitir Guðríðarkirkja í minningu Guðríðar Þorbjarnardóttur (ca 980-1050). Hér koma upplýsingar um Guðríði:

Guðríður Þorbjarnardóttir var viðförlasti Íslendingur miðalda og þótt víðar væri leitað. Hún var landnemi á vesturströnd Grænlands, landkönnuður á Vínlandi ásamt Þorfinni Karlsefni manni sínum og móðir fyrsta vestræna barnsins sem fæddist í Vesturheimi. Guðríður og Karlsefni fluttust heim til Íslands eftir Vínlandsförina. Eftir lát Karlsefnis fór Guðríður síðan til Rómar í pílagrímsgöngu og gerðist síðan nunna til æviloka. Frá henni er sagt á skemmtilegan hátt í Eiríks sögu rauða og Grænlendingasögu og hún sögð skörungur mikill og einlæg trúkona.

Guðríður Þorbjarnardóttir var fædd á Íslandi á 10 öld. Hennar er getið í Eiríks sögu rauða, Þorfinns sögu Karlsefnis og Grænlendingasögu. Guðríður átti kristna foreldra en var alin upp af heiðnu fólki. Fluttist hún með fósturforeldrunum til Grænlands, en þau dóu bæði á leiðinni og stóð Guðríður ein uppi. Sú saga er sögð af Guðríði þegar hún dvaldi að Herjólfsnesi á Grænlandi, að þangað hafi eitt sinn verið boðin völva, Þorbjörg lítilvölva, sem ætlaði að sýna listir sínar, en gekk ekki, því að konu vantaði til að syngja seiðinn.

Guðríður viðurkenndi að hún kynni að syngja seiðin Varðlokkur, sem Halldís fóstra hennar hafði kennt henni, en taldi að ekki hæfði henni sá söngur því að hún væri kristin kona. Var hart lagt að Guðríði, sem sættist á að syngja kvæðið og var það svo fagurlega kveðið að áheyrendur sögðust aldrei hafa heyrt slíkan söng. Völvan spáði fyrir veðrinu og einnig Guðríði og sagði hana myndu verða gæfukonu. „Vegir þínir liggja út til Íslands og mun þar frá þér koma ættbogi mikill og góður og yfir þínum ættkvíslum mun skína bjartur geisli,“ sagði Þorbjörg við Guðríði.

Guðríður giftist Þorsteini Eiríkssyni rauða og Þjóðhildar konu hans í Brattahlíð í Eiríksfirði. Guðríður og Þorsteinn settu bú sitt í Lýsufirði á Vestur-Grænlandi og dó Þorsteinn þar eftir skamman búskap. Er af því allkrydduð draugasaga þar sem hinn bóndinn í Lýsufirði vakti yfir líkinu. Reis þá Þorsteinn Eiríksson upp við dogg og kvaðst vilja sjá konu sína. Farið var eftir henni og skelfdust allir því talið var að Þorsteinn ætlaði að draga Guðríði með sér í dauðann. Guðríður mælti þá: „Ek vænti að Guðs gæsla muni yfir mér standa, ok mun ek áhætta með Guðs miskunn at fara til móts við hann.“ Fór hún til Þorsteins sem grét, og bað hana að sjá til þess að hann yrði ekki grafinn í óhelgri gröf, að henni fylgdi öll hjálp og miskunn og bað henni allrar blessunar. Heftir líkast til sjaldan frést af kristilegri draugi en Þorsteini Eiríkssyni. Þorsteinn var grafinn í Eiríksfirði að beiðni Guðríðar. Hún giftist Þorfinni Karlsefni um næstu jól, 999, og fóru þau næsta sumar ásamt fleira fólki að leita Vínlands, eins og frægt er orðið. Af Vínlandi eru til margar sögur, og þar ól Guðríður fyrsta evrópska barnið í Vesturheimi, Snorra Þorfinnsson. Enginn veit hversu langt suður með ströndum Ameríku þau komust, en sumir telja að þau hafi haft vetursetu á þeirri eyju sem nú er kölluð Manhattan.

Guðríður og Þorfinnur settust síðar að í Glaumbæ í Skagafirði og er út af þeim kominn mikill ættbogi, eins og völvan sagði fyrir um. Hún var gjarnan kölluð Guðríður biskupamóðir á fyrri tíð, því að flestir af fyrstu biskupunum, bæði í Skálholti og á Hólum voru af henni komnir. Hún var einnig langamma Hallberu abbadísar Þorsteinsdóttur, sem stofnsetti nunnuklaustrið á Stað í Reynisnesi 1295. Guðríður er á vissan hátt ættmóðir íslensku kirkjunnar. Eftir að Karlsefni dó, þá gerðist Guðríður einsetukona. Hún fór í pílagrímsferðar til Rómar um 1120 og er víðförlust allra Íslendinga miðalda.

Saga Guðríðar er stórmerkileg, þó svo að hún sé líka þjóðsagnakennd Í persónu hennar tengjast saman atburðir fyrstu kristni á Íslandi og landafundirnir, bæði í ferðum hennar og móðurhlutverki.

  • Hún er móðir fyrsta evrópubarnsins í Vesturálfu.
  • Hún er ættmóðir biskupa og abbadísa sem svo mjög mótuðu íslenska trúararfinn á miðöldum.
  • Hún er líka ættmóðir nútíma Íslendinga og það fer vel á því að minnast hennar í þessu mikla barnahverfi.
  • Landafundirnir bera vott um útrás og bjartsýni Íslendinga, og byggðin okkar í Grafarholti ber einnig nýju landnámi vitni.
  • Sögurnar um hana eru táknrænar, um konu sem þekkir og virðir tvær trúarhefðir og kynnist fólki af ólíkum kynþáttum. Hún er heittrúuð kristin kona eins og líf hennar og orð bera með sér, en hún þekkir og metur menningu og trú annarra. Atferli Lítilvölvu ber fornri „sjaman“hefð vitni, en slíkar konur gegna enn helgiþjónustu í byggðum hirðingja í Síberíu og N-Ameríku. Náttúrutrúin sem Lítilvölvan stendur fyrir, stóð konum opin engu síður en körlum, völvuhlutverkið var mikils metið meðan karlar gegndu öllum meginembættum miðaldakirkjunnar utan klausturs.