1. Á að skíra barnið við almenna messu, fjölskyldumessu, í sérathöfn í kirkjunni eða í heimahúsi? Fjölskyldumessur eru einu sinni í mánuði yfir vetrartímann, en almennar messur aðra sunnudaga. Allar messur eru klukkan ellefu. Kostirnir við að skíra í messu eru margir. Skírnin er innganga í kirkju Krists og það fer mjög vel á því að söfnuðurinn sem er saman kominn til að lofa Guð í sunnudagsguðsþjónustunni taki þátt í að bjóða hinn nýskírða einstakling velkominn og biðja fyrir honum. Þá er góðum söngkröftum á að skipa og organistinn spilar skírnarsálminn á orgelið.  Skírn í messu er ókeypis en greitt er fyrir skírn við sérstaka athöfn.
  2. Að velja skírnarvotta. Skírnarvottar mega vera 2-5 talsins. Skírnarvottar eru einnig kallaðir guðforeldrar barnsins og eiga að hjálpa til við að ala barnið upp í kristinni trú og styðja það á vegi trúarinnar. Þau eru vottar þess að skírnin hafi farið fram og er ætlað að biðja fyrir barninu á lífsleið þess. Það er mikilvægt hlutverk að vera guðforeldri. Á tilkynningunni um skírn þarf að gefa upplýsingar um kennitölu skírnarvottanna.
  3. Undirbúningur skírnarathafnar. Hvítt er litur skírnarinnar og í flestum tilfellum er barnið skírt í skírnarkjól. Skírnarkjóll er til í mörgum fjölskyldum, en Guðríðarkirkja á einnig tvo kjóla sem lánaðir eru til skírnar. Engin leiga er af kjólunum en foreldrar borga fyrir hreinsun hans. Ef skírn fer fram í heimahúsi þarf að velja fallega skál til að skíra barnið upp úr og gott er að hugsa líka fyrir því hvar í íbúðinni er best að vera.  Staðið er við skírnina og myndaður hringur svo búa þarf til gott pláss í kringum skírnarskálina.  Sálmurinn sem yfirleitt er sunginn þegar barnið er skírt er númer 252 í sálmabókinni “Ó blíði Jesú blessa þú”.  Prenta þarf sálminn út fyrir heimaskírn.
  4. Að velja lesara. Við skírn eru lesnir tveir ritningarlestrar. Vel fer á því að einn úr hvorri fjölskyldu lesi lestrana en lesarinn má líka vera einn. Lestrarnir eru tveir, svohljóðandi:
  • Jesús sagði: “Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.” (Matt. 28.18-20).
  • Heyrum ennfremur þessa frásögn: Menn færðu börn til Jesú, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það, sárnaði honum og hann mælti við þá: “Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.” Og hann tók börnin sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. (Mark. 10.13-16)