Hér er að finna upplýsingar um trúfélagsskráningu á vef Þjóðkirkjunnar.  Börn foreldra sem eru skráð í sambúð eða í hjónabandi eru sjálfkrafa skráð í sama trúfélög og foreldrarnir. Ef annað þeirra stendur utan trúfélaga eða heyra ekki til sama trúar og/eða lífsskoðunarfélagi þarf að skrá barnið sérstaklega inn í trúfélagið. Þess vegna skiptir miklu máli að foreldrar skírnarbarna (eða skírnarþeginn sjálfur ef um fullorðna manneskju er að ræða)  séu sér meðvituð um eigin trúfélagsstöðu.  Eyðublöð um breytingu á trúfélagsskráningu er að finna á vef Hagstofunnar fyrir 16 ára og eldri og fyrir börn yngri en 16 ára með því að smella á hlekkina sem eru undirstrikaðir. Hægt er að fylla blöðin út á netinu, prenta síðan út og undirrita og láta prestinn fá í skírnarviðtalinu. Það er líka hægt að ganga frá skráningunni rafrænt, þá þarf ekki að undirrita þau og þau berast beint til Þjóðskrár. Hér er að finna upplýsingar um netskil.

Hér má sjá 8. grein laganna um trúfélög:

 8. gr. 

[Aðild að skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi.]1)
 Þeir sem eru orðnir 16 ára að aldri geta tekið ákvörðun um inngöngu í skráð trúfélag [eða lífsskoðunarfélag]1) eða úrsögn úr trúfélagi [eða lífsskoðunarfélagi].1)
 [Barn getur frá fæðingu heyrt til trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða verið utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga með eftirfarandi hætti:
1. Séu foreldrar barns í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess skal það heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og foreldrar þess en ella vera utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrana.
2. Ef foreldrar barns sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess heyra ekki til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga skulu þeir taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barnið eigi að heyra til. Fram til þess tíma verður þessi staða barnsins ótilgreind.
3. Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þegar barn fæðist skal það heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og það foreldri sem fer með forsjá þess en ella vera utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrið.]1)
 Það foreldri sem fer með forsjá barns tekur ákvörðun um inngöngu þess í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi [eða lífsskoðunarfélagi].1) Ef foreldrar fara saman með forsjá barns taka þeir ákvörðun sameiginlega. Hafi barn náð 12 ára aldri skal leita álits þess um slíka ákvörðun.
 Hafi forsjá barns verið falin öðrum en foreldrum á grundvelli laga tekur forsjáraðili ákvörðun um inngöngu þess í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi [eða lífsskoðunarfélagi].1)
 [Enginn má samtímis heyra til þjóðkirkjunni, skráðu trúfélagi utan þjóðkirkjunnar eða skráðu lífsskoðunarfélagi eða fleiri en einu skráðu trúfélagi utan þjóðkirkjunnar eða skráðu lífsskoðunarfélagi.]1)