Tónlistarnemar úr Fjölmennt koma fram í messu í Guðríðarkirkju sunnudaginn 15. október kl. 11. Barn verður skírt í athöfninni.

Sr. María Rut Baldursdóttir leiðir helgihaldið. Kór Guðríðarkirkju syngur. Arnhildur Valgarðsdóttir er organisti og Lovísa Guðmundsdóttir kirkjuvörður. Sunnudagaskólinn á sama stað eins og vanalega í umsjá Tinnu og Írisar

Soffía Þorkelsdóttir, píanónemi, og Kór Fjölmenntar æfa í Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarstöð sem er til húsa í Vínlandsleið 14 í Grafarholti. Fjölmennt er símenntunarstöð fyrir fólk með þroskahömlun og/eða á einhverfurófi sem þurfa sérstakan stuðning í námi. Í Fjölmennt er boðið upp á fjölbreytt úrval námskeiða sem þátttakendur geta skráð sig á eftir áhugasviði.

Soffía Þorkelsdóttir er fjölhæfur píanóleikari og spilar bæði klassísk og rythmísk lög en í messunni ætlar hún að flytja tvö lög eftir meistara Bach, Prelúdíu í C dúr (BWV 846) og sálmalagið/Aríuna Bist Du bei mir (BWV 508). Kennari Soffíu á píanó í Fjölmennt er Rósa Jóhannesdóttir.

Kór Fjölmenntar telur á þessu tímabili 11 meðlimi og æfir undir stjórn Helle Kristensen og Rósu Jóhannesdóttur, tónlistarkennara hjá Fjölmennt. Kórinn syngur íslensk dægurlög og nýrri íslensk popp-tónlist. Í messunni ætlar kórinn að flytja 3 lög af efnisskrá sinni sem byggja á áhugasviði kórmeðlima og hafa öll texta með fallegum boðskap. 

 Verið hjartanlega velkomin