Við erum komin í aðventustuð í Guðríðarkirkju og ætlum að standa fyrir bókamessu á fullveldisdaginn 1. desember. Í Guðríðarkirkju er að finna skemmtilegar bækur af öllum stærðum og gerðum sem seldar eru til ágóða fyrir líknarsjóð kirkjunnar. Sjóðurinn stendur að mestu undir mataraðstoð og annarri hjálp við íbúa í hverfinu og veitir ekki af. Öllum fínu bókunum okkar verður raðað fram í safnaðarheimili á fyrsta sunnudag í aðventu og við höfum skemmtilega bókamarkaðsstemmningu allan daginn. Það verður mikið um að vera í kirkjunni, messa um morguninn, dansað og sungið kringum jólatréð klukkan tvö og jólasveinninn kemur í heimsókn. Við vonum að íbúar í Grafarholti og Úlfarsárdal sem leggja leið sína í kirkjuna um helgina kíki á bækurnar hjá okkur og gauki einhverju að líknarsjóðnum, svo að fleiri megi eiga gleðileg jól.

Kannski geta einhverjir byggt sér svona fínt bókahús fyrir afraksturinn?  Og svo er líka hægt að gefa notaðar bækur í jólagjöf.

Þau sem hafa lítinn áhuga á bókum en vilja styrkja sjóðinn geta borgað með kreditkorti á heimasíðunni,( sjá hér) eða greitt í heimabanka inn á reikning safnaðarins, 0114-26-3060. Kennitala kirkjunnar er 660104-3050. Við þökkum kærlega öllum þeim sem hafa stutt okkur á árinu með bókakaupum og gjöfum og hlökkum til að sjá sem flesta á bókamessunni í Guðríðarkirkju.

Bókahús