Það var glatt á hjalla í Guðríðarkirkju á þriðjudaginn, en þá stóð söfnun yfir söfnun Hjálparstarfs kirkjunnar í Grafarholti. Safnað var fyrir vatnsbrunnum með hreinu vatni fyrir fólk í Úganda, Eþíópíu og Malawi, en áður höfðu börnin fengið fræðslu um það hvers vegna það er svo mikilvægt að hafa aðgang að hreinu vatni. Þau vita að mörg börn deyja úr niðurgangi af því að vatnið þeirra er svo vont og að mörg börn, ungar stúlkur og konur vinna sér til húðar við að bera vatn á þurrum svæðum. Þessu má breyta.

Og svo var drukkið heitt kakó, og borðaðar piparkökur og og pönnukökur sem Kalli prestur bakaði. Sumum fannst svo gaman að þau sátu frameftir og fengu hláturskast með Sigríði, Kalla, Arndísi og Kristínu. Það er alltaf svo gaman þegar allir hjálpast að. Í ár var gengið í fjórtánda sinn og fermingarbörn í 60 sóknum tóku þátt.

Í Jóhannesarguðspjalli segir frá lækjum lifandi vatns sem frá hjartanu renna og það má með sanni segja að í þessari söfnun kallist kærleikurinn og vatnið á. Krökkunum tókst á þessari kvöldstund að safna 253.246- krónum sem ætti að duga fyrir amk einum og hálfum brunni. Til hamingju fermingarbörn með frábæran árangur!  Og takk góða fólk í Grafarholti og Úlfarsárdal sem eigið lifandi vatn í hjörtum ykkar.

Myndin er úr fræðsluefni Hjálparstarfs kirkjunnar. Hún er tekin af Jónasi Þórissyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins og sýnir brunn sem byggður var fyrir söfnunarfé frá Íslandi. Hann er girtur af svo að húsdýrin komist ekki í hann og grafinn djúpt í jörðu.

Vatnsbrunnur