Þrenningarhátíðin er á sunnudaginn, hátíðisdagur sem minnist heilagrar þrenningar. Flestir sunnudagar kirkjuársins fram til aðventu draga nafn sitt af þrenningarhátíðinni. Þessir sunnudagar eru grænir í kirkjuárinu, presturinn ber græna stólu og altarið grænt klæði til að minna okkur á vöxtinn og þroskann sem við leggjum áherslu á í trúarlífinu á sunnudögum eftir þrenningarhátíð.

Myndin hér fyrir neðan er eftir kaþólska guðfræðinginn Anthony J. Kelly sem býr í Ástralíu. Hringirnir þrír vísa allir til ólíkrar persónu þrenningarinnar. Hringurinn fyrir miðri mynd segir okkur að Guð föður getum við helst nálgast og upplifað í náttúrunni og þar sjáum við höfrunga, fossa og tré sem öll minna okkur á Guðs góðu sköpun. Hringurinn til vinstri er síðan persóna frelsunarinnar í Jesú Kristi. Guð sem kemur til okkar í Jesú er vinur okkar. Við þekkjum hann af því að hann dó fyrir okkur á krossi og í öðru fólki sem við bindumst vináttu og ástúðarböndum. Hringurinn til hægri er síðan tákn heilags anda sem lífgar og nærir og birtist okkur eins og móðir sem gefur barni sínu brjóst, eins og smæsta fruma líkamans og hið kosmíska afl sem heldur öllu saman í einingu.

Þessa mynd skapandi, frelsandi og nærandi Guðs er gott að íhuga á sunnudögum eftir þrenningarhátíð.
Holy TrinityAnthony J. Kelly CSsR