Prédikun Aðalsteins Dalmanns Októssonar meðhjálpara á uppstigningardegi, kirkjudegi eldri borgara í Guðríðarkirkju 9. maí 2013.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Í öðrum ritningarlestrinum sem lesinn var hér áðan, bað postulinn Guð um að upplýsa sjón hjartans til þess að þau hlustuðu gætu séð allt það góða sem Guð hefur kallað okkur til. Í þessum orðum erum við vakin til vonar og framtíðar fyrir íslenska þjóð og það einmitt vonin sem ég ætla að tala um í dag, von sem lýsir sér í frelsi, náttúru og æsku þjóðarinnar.

Frelsið
Á haustdögum 1939 hófst heimsstyrjöldin síðari með innrás Þjóðverja í Pólland og margar þjóðir voru sviptar frelsi sínu. Þeim hildarleik sem styrjöldin var, lauk ekki fyrr en fimm árum síðar eða á vordögum 1945. Þegar ég var 13 ára gamall vann ég hjá Sigurjóni Péturssyni á Álafossi við að steikja bacon og egg ofan í bandaríska hermenn sem voru að undirbúa sig fyrir innrásina í Normandy á vordögum 1944 og markaði sú innrás þátttaskil í stríðinu. Þarna kynntist ég mörgum hermönnum sem létu lífið í þessari innrás. Þessir menn og fleiri fórnuðu lífi sínu fyrir frelsið.

En samt hafa á síðustu áratugum geisað styrjaldir í heiminum og margar þjóðir reynt að velta af sér valdníðslu og oki einræðisherra og barist fyrir frelsi sínu. Þrátt fyrir að samtök eins og Sameinuðu þjóðirnar og Öryggisráðið kæmu til sögunnar virðist það hafa skilað litlu í átt til friðar og öryggis fyrir margar þjóðir sem berast enn á banaspjótum.

Á morgun 10. maí eru nákvæmlega 73 ár frá því að Ísland var hernumið af Bretum. Í einum vetfangi breyttist ásýnd friðsæls bæjarsamfélags og skyndilega voru breskir hermenn komnir að opinberum byggingum og öðrum mikilvægum stöðum s.s. Landsímahúsinu og Stjórnaráðinu. Þarna vorum við svipt frelsi sem við höfðum haft allt frá árinu 1918 þegar Ísland var frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku.

Frelsi og sjálfsákvörðunarrréttur eru mannréttindi sem allar þjóðir berjast fyrir og hafa þurft að fórna miklu til að öðlast slíkt frelsi. Einar skáld Benediktsson orti um frelsið í kvæðinu Ísland á þjóðmenningarhátíð Reykjavíkur árið 1901.

Landið vort skal aldrei okað
undir nýjan hlekk.
Ekki úr spori aftur þokað
ef að fram það gekk
Rétt ei Forna Fróni helsi
fyrir sigurkrans.
Vörð um heill þess hag og frelsi
heldur Guðs vors lands

Megi friður og frelsi ríkja meðal allra þjóða og sátt og samlyndi, gleði, farsæld og umhyggja. Þá mun okkar vel farnast.

Náttúran
Altaristafla kirkjunnar okkar er náttúran sjálf, vatnið sem er uppspretta lífsins og gróðurinn sem er lunga jarðar og heiðblár himininn með sínar óravíddir. Náttúran og umhverfið er samofið tilveru okkar og okkur hlýnar um hjartarætur þegar útlendingar fara fögrum orðum um landið og fegurð þess. Ég starfaði um nær hálfrar aldar skeið hjá Flugfélagi Íslands og síðar Flugleiðum og kynntist mörgum útlendingum sem millilendu hér á landi á leið sinni til annarra landa. Mér er sérstaklega minnistæður bandarískur skókaupmaður sem hafði viðkomu hér á einkaflugvél sinni sem þarfnaðist viðgerðar og tók svo viðgerð að mig minnir u.þ.b. tíu daga. Svo hann ákvað að nota tímann til að ferðast um landið. Þegar hann kom til baka úr þessari ferð var honum mikið niðri fyrir og sagði “Mikið lifandi ósköp og skelfing eigið þið fallegt land, í guðanna bænum segið engum frá fegurð þess”.

Enn við viljum nú samt njóta náttúrunnar með öðrum og sýna þeim sem vilja fífilbrekkurnar grónu og grösugu hlíðarnar með berjalautunum, flóatetrin og fífusundin hans Jónas Hallgrímssonar og heiðavötnin bláu og þau feiknaöfl sem búa í fossum landsins. Alls þessa viljum við deila með öðrum en við verðum að sýna ábyrgð og ganga vel um viðkæma náttúru landsins. Síðast en ekki síst að leiðbeina og fræða æskufólk um nauðsyn þess að vernda hana og hlúa að öllum þeim þáttum sem að náttúrvernd snýr. Því það er stór hluti af menningu okkar og lífsafkomu að við berum gæfu til þess að nýta gæði landsins af skynsemi og ábyrgð. Þá uppskerum við ríkulega af þeim gæðum sem í náttúru landsins býr.

Æskan
Í dag, á Uppstigningardag sem hefur verið gerður að degi aldraða horfum við til baka til æskuáranna og reynum að bera saman þau tækifæri sem þá voru og nú. Ég var barn á fjórða áratug síðustu aldar þegar hin eina sanna Kreppa ríkti um allan heim. Þá voru möguleikarnir ekki miklir miðað við þau tækifæri sem unga fólkið í dag hefur til þess að mennta sig til þeirra starfa sem það hefur löngun til.
Það býr mikill kraftur og framfarahugur í æsku þessa lands og ég kvíði ekki framtíðinni ef við berum gæfu til að leiðbeina æskufólki okkar til góðrar verka og uppfræða það um hin góðu gildi, trú, von og kærleika þá höfum við uppskorið eins og til var sáð.

Það er einlæg trú mín á von og framtíð íslensku þjóðarinnar felist í frelsinu, náttúrunni og æskunni sem Guð hefur gefið okkur.

Mig langar til að enda þessa ræðu á ljóði hins ástsæla æskulýðsleiðtoga okkar Íslendinga, séra Friðriks Friðrikssonar, sem hann orti um aldursskeiðin:

Hvar er lífið svo fagurt, með lýsandi roða
sem í lífsglaðri bernsku við foreldramund
þar sem tárin sem daggir og brosin oss boða
hina björtustu framtíð á vorblíðri stund?

Hvað er fegurra en æskan, er sjándans sýnir
gefa sálunni vængflug með hugsjóna mergð,
þar sem menntanna blóm hún við brautina tínir
og svo býr sig að heiman í dáðríka ferð?

Hvað er göfugra en manndómsins mörkuðu brautir,
þar sem mátturinn þroskast við baráttu og starf,
þar sem heimilis sældin og sigraðar þrautir
gefa sonunum heiður og nytsemd í arf?

Hvað er dýrlegra en ellin með drifhvítu hárin,
þegar dagstrit er endað við sólarlagsfrið
og hún fullsödd og barnsglöð og ánægð með árin
sér í andanum hvíldina blasa sér við?

Sérhvert lífsskeið er fagurt, en fullkominn blóma
aðeins fær sá, er þiggur Guðs hjálpræðisgjöf.
Því bernskan og ellin fá eilífðarljóma
Af því orði, sem helgar jafnt vöggu sem gröf.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen

Myndin sýnir Aðalstein að undirbúa messu í Guðríðarkirkju með fangið fullt af messuskrám.
Aðalsteinn