Bókamarkaður og líknarsjóðurinn
Jólamánuðurinn er dýr hjá barnmörgum fjölskyldum og víða er hart í ári. Líknarsjóðurinn okkar er næstum tómur núna og það væri dýrmætt ef þið gætuð séð af krónum í hann handa þeim sem lítið hafa milli handanna. Peningarnir eru notaðir til að kaupa matarkort í stórverslunum fyrir jólin, svo að fólk geti valið sér sjálft það sem það vanhagar um til jólabaksturs eða hátíðar. Það munar um allt. Reikningsnúmer sjóðsins er 0114-26-3060. Við ætlum líka að vera með bókamarkað á aðventu til styrktar líknarsjóðnum. Bókamarkaðurinn verður vikuna 6. desember til 12. desember og rennur allur ágóði til líknarsjóðsins. Það er tilvalið að grisja dálítið í hillunum hjá sér og koma með afgangsbækurnar í kirkjuna sem aftur verða seldar fyrir vægt verð og finna aðrar bækur sem maður á eftir að lesa. Það er umhverfisvænt og hagkvæmt að kaupa notaðar bækur! Ef einhverjar bækur ganga af eftir markaðinn fara þær í Góða hirðinn og halda því áfram að styðja við gott málefni.