Kvennamessa á kvennafrídaginn 2010
Konur gegn ofbeldi

Félag prestvígðra kvenna býður þér í kvennamessu í Hallgrímskirkju í tilefni kvennafrídagsins 2010. Messan hefst kl. 14:00 og gengið verður út úr kirkjunni kl. 14:25 en þennan dag eru allar konur á Íslandi hvattar til þess að ganga út af vinnustöðum sínum kl. 14:25.

Margvísleg dagskrá verður í boði um allt land og í Reykjavík verður safnast saman á torginu fyrir utan Hallgrímskirkju og kl. 15:00 hefst gangan niður Skólavörðustíg að Arnarhóli en Hallveig landnámskona mun leiða gönguna.

Listakonur munu verða með uppákomur á hverju götuhorni og prestvígðar konur munu skarta bleikum kollar í tilefni dagsins.
Dagskráin er helguð baráttu kvenna gegn kynferðis ofbeldi og á heimasíðu kvennafrídagsins segir:
„Ofbeldi karla gegn konum og börnum er eitt alvarlegasta samfélagsmein samtímans um heim allan. Þrátt fyrir þá hávaðaþögn sem ríkir um þennan djúpstæða samfélagsvanda, birtist hann margs konar móti. Hér á landi er lýsir hann sér m.a. þannig, að ein kona af hverjum þremur sætir grófu kynferðislegu ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni.
Þeir dómar sem falla að jafnaði í undirrétti og Hæstarétti eru á hinn bóginn, vart teljandi á fingrum annarrar handar, þó að u.þ.b. 300 konur megi á ári hverju sæta grófu kynferðisofbeldi.
Þótt margt hafi áunnist á undanförnum 20 árum berjast þolendur enn við djúpstæða fordóma.
Kynbundið ofbeldi er sprottið af sama meiði og annað misrétti sem konur standa frammi. Það hefur að hluta til náð að brjótast upp á yfirborðið sem viðurkenndur vandi. Nægir í því sambandi að nefna misréttið sem viðgengst á vinnumarkaðnum og birtist í kynbundnum launamun og almennt minni framamöguleikum.
Flest bendir til að árangur á einu sviði jafnréttisbaráttunnar sé háður þeim árangri sem næst á öðrum sviðum hennar.“