Salt jarðar: Helgistund og vöfflukaffi tileinkuð fullorðnum þolendum eineltis og kynferðisáreitis í Guðríðarkirkju

“Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á þá að selta það?” segir í Mattheusarguðspjalli. Föstudaginn 15. október er sérstakur átaksdagur gegn einelti. Einelti er mannskemmandi samfélagsmein sem viðgengst bæði hjá börnum og fullorðnum. Sú eða sá sem verður fyrir einelti upplifir það að sjálfstraust, réttmætt öryggi og krydd tilverunnar sé tekið í burtu. Salt manneskjunnar, félagsauður jarðar, sjálfsvirðing, mannréttindi og lífsgleði eru mikilvæg gildi sem standa þarf vörð um í samfélaginu og einstaklinga á milli.

Að kvöldi átaksdags gegn einelti 15. október býður Guðríðarkirkja til helgistundar og kaffisamsætis fyrir þau sem eru fullorðin, búa við eða hafa búið við einelti í vinnu eða einkalífi og vilja ræða um úrræði og stuðning þegar saltið dofnar. Byrjað verður með stuttri helgistund kl. 20 en síðan sest að kaffi og umræðum sem m.a. gætu leitt af sér hópastarf í framtíðinni ef áhugi er fyrir því.