Vængjamessa er nýjung í starfi kirkjunnar og verða þær í Guðríðarkirkju í Grafarholti. Fyrsta messan verður miðvikudagskvöldið 10. Febrúar kl 20.00 en Vængjamessa er hversdagsmessa að kvöldi dags og kallast á við Æðruleysismessurnar á sunnudagskvöldum í Dómkirkjunni.

Allir eru velkomnir en messan miðar að því að lyfta mönnum upp frá áhyggjum af sínu nánasta fólki vegna erfiðleika, kvíða eða vímuefnaneyslu.

Vængjamessan dregur nafn sitt af texta Hómilíubókarinnar, en þar er okkur sagt að berast um á tveimur vængjum, elsku til Guðs og elsku til náungans. Í Biblíunni er víða tekin líking af Guði sem fugli sem skýlir okkur undir vængjum sínum og þess vegna hæfir vængjamessa vel sem tákn um stað þar sem við getum fengið huggun, styrk og nýjan anda.

Undirbúningshóp um messurnar hefur verið komið á legg og í honum eru Jóhanna Arnþórsdóttir, Sigurrós Yrja, Inda Hrönn Björnsdóttir og Inga Valdís Heimisdóttir. Í vængjamessunum munu leikmenn líka miðla af reynslu sinni. Eftir messu er boðið upp á kaffi og spjall.

Í fyrstu messunni mun Sylvía Rún leiða söng og syngja einsöng en undirleikari er Björn Tómas Kjaran Njálsson. Séra Karl Matthíasson stýrir vængjamessunum sem til stendur að halda fyrsta miðvikudagskvöld í hverjum mánuði yfir veturinn.