Dagmálatíð kl. 9 á miðvikudagsmorgnum

Í fyrravor voru dagmálatíðir í kirkjunni kl. 9 árdegis og mæltust vel fyrir. Setið er í kórnum. Kl. 9 byrjar kyrrðarstund en dagmálatíðin er síðan sungin kl. 9:15. Boðið er upp á morgunverð eftir tíðagjörðina, fólk dregur sér ritningarvers og Aðalsteinn meðhjálpari les fyrir okkur hugvekju. Að fornu var sólarhringurinn ekki talinn í klukkustundum heldur eyktum sem miðaðar voru við gang sólarinnar og hvernig sól og önnur himintungl bar yfir kennileiti, sem þá kölluðust eyktarstaðir. Í fornkirkjunni var snemma farið að syngja tíðir í tengslum við eyktamörkin og helga þannig hvert tímabil dagsins góðum Guði. Á Íslandi tíðkaðist slíkur tíðasöngur í klaustrum og á biskupsstólunum. Tíðir eru 8 talsins: óttusöngur hinn fyrri (matines), óttusöngur hinn efri (laudes), miðmorguntíð (prima), dagmálatíð (tercia), hádegistíð (sexta), eyktartíð (nona), aftansöngur (vesper), og náttsöngur (completorium). Aftansöngurinn sem sunginn er í kirkjum landsins á aðfangadagskvöld og gamlárskvöld eru leifar af þessum forna tíðasöng.

 

Foreldramorgnar í febrúar og byrjun mars- Barnavagnagönguklúbbur

Það er mikið um að vera á foreldramorgnum, enda mikið af litlum börnum í hverfinu okkar. Liljugarðurinn er fullur af barnavögnum á miðvikudagsmorgnum og foreldrarnir geta því fylgst með öllum hreyfingum úr vagninum meðan kaffi er drukkið. Foreldramorgnarnir eiga sér eigin hóp á Facebook, “Foreldramorgnar í Guðríðarkirkju” og eru allir velkomnir í hópinn. Við eigum von á heilmiklu prógrammi sem að Karen Ósk Úlfarsdóttir og Fríða Sandholt stýra af miklum dugnaði. Foreldramorgnarnir standa líka fyrir barnavagnagöngu á mánudögum kl. 10 og er hist á planinu hjá Guðríðarkirkju.

3. febrúar          Kaffi og spjall.

10. febrúar        Helga Jóna og Þórunn frá hannyrðaversluninni Nálinni verða með stutta kynningu á námskeiðum og gefa okkur góðar hugmyndir. Athugið að kynningin hefst kl. 10.

17. febrúar        Öskudagur. Gaman að koma með krílin í grímubúningum og halda lítið grímuball.

24. febrúar        Kaffi og spjall.

3. mars                        Hollustunart – allir að koma með eitthvað hollt og gott með kaffinu; gulrætur, epli, vínber, rúsínur, appelsínur, agúrkur…

10. mars           Kaffi, spjall og handverk. Endilega koma með handavinnuna með sér. Eins ef þið eruð að prjóna/sauma/hanna eitthvað megið þið endilega taka það með og sýna og selja.