Fyrirhugað er að auka samstarf meðal nágrannasafnaða í Reykjavíkurprófastdæmi eystra. Sem lið í þeirri samvinnuviðleitni ætla nyrstu sóknir prófastdæmisins, í Grafarholti og Úlfársárdal, Grafarvogi og Árbæ að sameinast um útimessu 19. júlí kl. 11 í skógarreitnum vestan Vesturlandsvegar, sem einmitt er á mörkum sóknanna þriggja. Lagt verður af stað frá Guðríðarkirkju rúmlega 10 um morguninn og gengið meðfram golfvellinum niður að skógarreitnum. Messan er stutt og þegar henni er lokið verður grillað. Þetta er tilvalin messa fyrir fjölskyldufólk og upplagt tækifæri fyrir fermingarbörn næsta vetrar sem eru að feta sín fyrstu skref í messusókn vetrarins að koma með í útimessuna. Og ekki spillir að fá stimpil í bókina sína.