Bryddað verður upp á þeirri nýbreytni á miðvikudagsmorgnum frá og með 4. febrúar að bjóða upp á morgunbænir í Guðríðarkirkju kl. 9.

Bryddað verður upp á þeirri nýbreytni á miðvikudagsmorgnum frá og með 4. febrúar að bjóða upp á morgunbænir í Guðríðarkirkju kl. 9.

Presturinn tekur við fyrirbænum og einnig er hægt að skilja bænir eftir í bænakassa við innganginn í kirkjuskipið. Á hverjum miðvikudegi er einnig beðið sérstaklega fyrir tilteknu málefni. Þannig verður beðið fyrir Gaza í fyrstu tíðagjörðinni.

Stuðst verður við bænabók sr. Karls Sigurbjörnssonar biskups. Setið er í kórnum sunnanmegin, svo að Geislagarðurinn nýtur sín vel við íhugunina. Dagmálatíðin tekur u.þ.b. 15 mínútur og er góð leið til að byrja daginn. Kirkjan er opnuð kl. 8:45 og er þögn í kirkjunni í 15 mínútur fyrir athöfn. Svo verður drukkið kaffi ef menn vilja.

Að fornu var sólarhringurinn ekki talinn í klukkustundum heldur eyktum sem miðaðar voru við gang sólarinnar og hvernig sól og önnur himintungl bar yfir kennileiti, sem þá kölluðust eyktarstaðir. Í fornkirkjunni var snemma farið að syngja tíðir í tengslum við eyktamörkin og helga þannig hvert tímabil dagsins góðum Guði. Á Íslandi tíðkaðist slíkur tíðasöngur í klaustrum og á biskupsstólunum. Dagmálatíðin er sungin klukkan 9. Tíðir eru 8 talsins: óttusöngur hinn fyrri (matines), óttusöngur hinn efri (laudes), miðmorguntíð (prima), dagmálatíð (tercia), hádegistíð (sexta), eyktartíð (nona), aftansöngur (vesper), og náttsöngur (completorium). Aftansöngurinn sem sunginn er í kirkjum landsins á aðfangadagskvöld og gamlárskvöld eru leifar af þessum forna tíðasöng.