Ákveðið var að leita nýrra leiða við byggingu Guðríðarkirkju, sem að tryggði söfnuðinum fagurt guðshús þar sem jafnframt væri gætt mikillar hagkvæmni. Ágrip af einstakri byggingarsögu kirkjunnar má lesa að baki „Áfram“-smellunni.

Ákveðið var að leita nýrra leiða við byggingu Guðríðarkirkju, sem að tryggði söfnuðinum fagurt guðshús þar sem jafnframt væri gætt mikillar hagkvæmni. Ágrip af einstakri byggingarsögu kirkjunnar má lesa hér að neðan.

Grafarholtssöfnuður er yngsti söfnuður Þjóðkirkjunnar. Sóknin var stofnuð 22. október 2003 og var dr. Sigríður Guðmarsdóttir skipuð fyrsti prestur Grafarholtsprestakalls tæpu ári síðar. Í Grafarholti og Úlfarsfelli búa nú 5300 manns og ná sóknarmörk í norðri til bæjarmarka Mosfellsbæjar. Núverandi formaður sóknarnefndar er Níels Árni Lund.

Snemma var farið að huga að því að söfnuðurinn fengi þak yfir höfuðið og guðshús risi í Grafarholti. Undirbúningsnefnd um kirkjubyggingu tók til starfa 2005 og síðan byggingarnefnd frá árinu 2006. Formaður beggja nefnda var Stefán Ragnar Hjálmarsson, byggingatæknifræðingur, en auk hans starfa í byggingarnefndinni sóknarpresturinn og Hreinn Ólafsson tæknifræðingur. Kirkjan hefur risið með undraverðum hraða og mun það svo til teljast einsdæmi að vígð sé kirkja fyrir aðeins fimm ára gamlan söfnuð í Þjóðkirkjunni.

Við byggingu kirkjunnar var ákveðið að fara nýjar leiðir, þar sem markmiðið var að söfnuðurinn fengi fagra kirkju en um leið að gætt yrði mikillar hagkvæmni og söfnuðinum ekki steypt í skuldir, sem erfitt yrði að standa undir. Kirkjuráð með biskup Íslands í broddi fylkingar hafði forgöngu um samstarf við Grafarholtssókn um kirkjubygginguna og er það í fyrsta sinn sem yfirstjórn Þjóðkirkjunnar og einstök sókn vinna svo náið saman að kirkjubyggingu. Hefur Jöfnunarsjóður sókna styrkt kirkjubygginguna myndarlega.

Guðríðarkirkja er fyrsta kirkja á Íslandi sem byggð er í lokuðu alútboði. Fjórir verktakar tóku þátt í útboðinu og varð Sveinbjörn Sigurðsson hf. hlutskarpastur. Arkitektar kirkjunnar eru Þórður Þorvaldsson og Guðrún Ingvarsdóttir hjá Arkþingi ehf. Með Arkþingi ehf. unnu Landhönnun, Almenna Verkfræðistofan, Fagtækni og Trivium ráðgjöf að gerð tillögunnar. Yfirsmiður kirkjunnar er Finnur Jóhannsson. Við hönnun kirkjunnar var farin sú óvenjulega leið að ramma kirkjuskip og safnaðarsali inn með tveimur görðum. Austurgarðurinn myndar því eins konar þrívíða altaristöflu handan við altarið sem tekur breytingum í takt við árstíðirnar og veitir jafnframt birtu og dýpt inn í kirkjurýmið. Garðarnir eru hannaðir af Hermanni Ólafssyni hjá Landhönnun svo og Pétri Jónssyni og Höllu Hrund Pétursdóttur hjá Landark. Reynir Sýrusson húsgagnahönnuður hefur hannað flestar innréttingar hússins í samráði við arkitekta hússins og eru stólar, altari, grátur og sálmatafla smíðuð hjá Beyki ehf. Innviðir kirkjunnar eru úr birki sem gefur henni hlýjan og léttan blæ.

Kirkjan verður vígð á sunnudaginn, 7. desember, kl. 14:00, og er safnaðarfólk hvatt til að fjölmenna til vígslunnar.