Sunnudagaskólinn eða kirkjuskólinn í Grafarholtssókn verður starfræktur alla laugardagsmorgna í vetur kl. 11 í stað sunnudagsmorgna áður.

Sunnudagaskólinn eða kirkjuskólinn í Grafarholtssókn verður starfræktur alla laugardagsmorgna í vetur kl. 11 í stað sunnudagsmorgna áður. Þannig verður nóg rúm í kirkjunni þegar fram líða stundir bæði fyrir kirkjuskóla og messur, því að bæði börn og fullorðnir kunna að meta 11 tímann, en kirkjan smá.

Laufey Brá Jónsdóttir æskulýðsfulltrúi sér um kirkjuskólann og með henni Anna Elísa Gunnarsdóttir og Kristín Rut Ragnarsdóttir. Þar er að vanda mikið fjör, söngur, sögur og brúður stíga á stokk sem aldrei fyrr.

Auk kirkjuskólans sem er miðaður að þörfum leikskólabarna og yngsta stigs grunnskóla verða fjölskyldumessur annan sunnudag í mánuði eins og verið hefur sem ná eiga til breiðari aldurshóps. Tónlistarstjóri í fjölskyldumessum er Björn Tómas Njálsson. Nú verða sem sagt fimm barna og fjölskylduguðsþjónustur í mánuði í stað fjögurra áður.

Kirkjuskólinn og fjölskyldumessurnar verða sem fyrr í sal Ingunnarskóla uns Guðríðarkirkjan er tilbúin. Verið öll hjartanlega velkomin, stór og smá!