“Við þurfum að efla kirkjukórinn okkar og ég bið þig lesandi góður að íhuga vandlega hvort ekki leynist hjá þér löngun til að syngja í góðum hópi” segir Níels Árni Lund sóknarnefndarformaður Grafarholtssóknar í septemberpistli sínum.

“Við þurfum að efla kirkjukórinn okkar og ég bið þig lesandi góður að íhuga vandlega hvort ekki leynist hjá þér löngun til að syngja í góðum hópi” segir Níels Árni Lund sóknarnefndarformaður Grafarholtssóknar í septemberpistli sínum. Pistillinn fer hér á eftir.

Er sumarið kom yfir sæinn/ og sólskinið ljómaði’ um bæinn/ og vafði sér heiminn að hjarta,/ ég hitti þig, ástin mín bjarta.

Og saman við leiddumst og sungum/ með sumar í hjörtunum ungum,/ hið ljúfasta’, úr lögunum mínum,/ ég las það úr augunum þínum.

Þótt húmi um heiðar og voga/ mun himinsins stjörnudýrð loga/ um ást okkar, yndi og fögnuð,/ þótt andvarans söngrödd sé þögnuð.

Dagný/Tómas Guðmundsson

Við þurfum að efla kirkjukórinn okkar og ég bið þig lesandi góður að íhuga vandlega hvort ekki leynist hjá þér löngun til að syngja í góðum hópi. Markmiðið er að hér verði til staðar myndarlegur kirkjukór þegar við vígjum kirkjuna sem nú er áætlað að verði annan sunnudag í aðventu á þessu ári. Kirkjukórinn samanstendur nú af rúmlega 10 dugmiklum konum sem hafa æft reglulega undanfarin ár og sungið við athafnir. Þær hafa mikinn metnað og með starfi þeirra hefur verið lagður góður grunnur fyrir blandaðan kirkjukór. Stjórnandinn er aldeilis ágætur, Hrönn Helgadóttir organisti sem vön er kórstjórn. Tilfinnanlega vantar karlaraddir en sannarlega veitir ekki af fleiri kvenröddum til viðbótar þeim sem fyrir er. Trúi ég vart öðru en meðal íbúa séu góðir söngkraftar af báðum kynjum á þessu sviði auk svo margra sem kannski aldrei hafa sungið í kór en hafa gaman af söng, hafa tíma aflögu og vilja blandast góðum hópi í skemmtilegu starfi. Vitað er að í sókninni er fólk sem hefur sungið í öðrum kórum, hefur flutt hingað úr öðrum sóknum af Reykjavíkursvæðinu og utan af landi. Aldeilis væri nú slægur í slíku fólki ásamt öðrum áhugasömum einstaklingum.

Því er ekki að leyna að nú er aðstaða kórsins fátækleg en það munu verða umskipti á. Þegar kirkjan verður vígð er ætlunin að þar verði komið öflugt hljóðfæri og verið er að ganga frá samningum um kaup á kirkjuorgeli sem væntanlega verður tilbúið innan tveggja ára. Með hinni nýju kirkju gjörbreytist öll aðstaða safnaðarins, þ.á.m. kirkjukórsins, bæði hvað æfingar varða og kirkjusöng við athafnir. Gert er ráð fyrir sérstakri aðstöðu fyrir kórinn og sannarlega er ætlunin að búa vel að honum hvað yfirbragð og búnað varðar þannig að kórnum fylgi reisn og Grafarholtsbúar geti verið stoltir af sínu söngfólki í nýrri kirkju. Hvet ég sem flesta að íhuga þetta mál og veita því liðsinni og sannfærður er ég um að viðkomandi hefur gaman af.

Megi haustið verða ykkur gleðiríkt.

nál.