Níels Árni Lund, sóknarnefndarformaður Grafarholtssóknar, minnir okkur á kirkjubygginguna, sem nú stendur yfir, í marspistli sínum í fréttabréfi kirkjunnar. Hann greinir frá framkvæmdunum og hvetur til fjáröflunar fyrir kirkjuna.

Níels Árni Lund, sóknarnefndarformaður Grafarholtssóknar, minnir okkur á kirkjubygginguna, sem nú stendur yfir, í marspistli sínum í fréttabréfi kirkjunnar. Hann greinir frá framkvæmdunum og hvetur til fjáröflunar fyrir kirkjuna. Pistilinn má lesa í heild sinni hér að neðan:

Á vetrum hylur vatnið þykkur ís,< ?xml:namespace prefix = o ns = "urn:schemas-microsoft-com:office:office" />

en vorsins guð fer eldi norðurheima.

Með bleika vanga byggð úr fönnum rís.

Að brjósti jarðar heitir vindar streyma,

og augun bláu opnar vatnsins dís,

og enginn veit, hvað djúpin hljóðu geyma.

En stundum minna morgunglaðir vogar

á mikið bál, sem undir niðri logar.

Davíð Stefánsson.

Já, þorri er liðinn og góa gengin í garð. Samt er nokkuð kaldranalegt út að líta og veður hálfruddalega um allt land í langan tíma. Öll útivinna nokkuð strembin. Mér er þetta ofarlega í huga þegar ég hugsa til kirkjubyggingarinnar og verktakanna þar. Handtökin hafa verið erfið en þó bendir ekkert til annars en áætlanir standist og við getum vígt kirkjuna í lok ársins. Margir undrast byggingahraðann, að aðeins 5 ára söfnuður skuli ætla sér að koma upp kirkju á þeim tíma. Á nýafstöðnum aðalfundi safnaðarins var gerð ítarleg grein fyrir stöðu þessara mála svo og reikningum safnaðarins. Til þessa höfum við sparað nánast flest það sem hægt er. Þannig hefur söfnuðurinn getað lagt í sjóði og ásamt framlagi úr Jöfnunarsjóði kirkjunnar teljum við að takist að koma kirkjunni upp. Þá er eftir innri búnaður og tveir garðar; innigarður og altarisgarður sem verður í raun altaristafla kirkjunnar. Sérstök fjáröflunarnefnd er að hefja söfnunarátak meðal íbúanna í hverfinu með það að markmiði að safna fjármagni sem ætlað er að nýta til kaupa á innanstokksmunum og jafnvel kirkjuklukkum og síðar meir orgeli. Vart þarf að undirstrika óskir sóknarnefndar til íbúanna um að þeir taki vel á móti fjárbeiðnum og/eða gerist styrktaraðilar til einhvers tíma. Það er alkunna að fjölmargir söfnuðir hafa fjármagnað sjálfir stóran hluta sinnar kirkju. Við stefnum að því að um næstu jól geti íbúar hér sótt kirkju sína í hverfinu og hvernig væri ef t.d. hvert heimili setti sér það markmið að leggja fram í söfnun sem svaraði verði eins stóls. Þá gætu líka leynst einstaklingar sem vildu e.t.v. gefa kirkjuklukkurnar, skírnarfont eða einhvern annan ákveðinn búnað. Kærkomnar væru slíkar gjafir en jafnframt skal á það bent að margt smátt gerir eitt stórt og öll framlög eru metin og þökkuð. Höfum það í huga að þetta verður okkar kirkja og um byggingu hennar og stöðu skulum við sameinast og standa vörð um.

nál.