Níels Árni Lund sóknarnefndarformaður horfir fram á veginn og minnir á það í nýárspistli sínum, að hvað sem árið ber í skauti sér, er það kirkjubyggingin sem verður hjá Grafarholtssókn hið stóra og mikla verkefni ársins. Pistilinn má lesa hér fyrir neðan.

Níels Árni Lund sóknarnefndarformaður minnir á það í nýárspistli sínum, að hvað sem árið ber í skauti sér, er það kirkjubyggingin sem verður hjá Grafarholtssókn hið stóra og mikla verkefni ársins. Pistilinn má lesa hér fyrir neðan.

Með röðli dagsins rís ég upp af svefni,

er rauður loginn gyllir stafn og þil.

Með söng í hjarta nafnið þitt ég nefni

og nýt þess eins og guð að vera til.

Þú lýstir mér að ströndum stórra sæva,

þótt storma hreppti ég og veður hörð.

Þín sorg er mín, þín gleði öll mín gæfa,

þinn guð er minn, þitt land mín fósturjörð.

Dögun – Davíð Stefánsson

Enn eitt árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka, segir í sálminum fallega. Þessi sálmur hljómar sérhvert Gamlárskvöld í kirkjum og á heimilum fólks og minnir okkur á tímann – þetta afstæða fyrirbrigði sem stundum líður svo hratt og silast þess á milli áfram. Ég er hvorki betri né verri en gengur og gerist en það eitt að hlusta á sálminn í enda hvers árs, snertir einhverjar þær tilfinningar svo, að stutt er í tárin. Ég skynja að eitthvað er farið, eitthvað sem kemur aldrei aftur en jafnframt hve gott það er að fá að líta til nýs árs og geta beðið Guð um handleiðslu og velfarnað á því ári sem er að hefjast. Kannski á þessi viðkvæmni mín rætur að rekja til bernskuheimilis míns þar sem helgi fylgdi þessum degi. Ég minnist þess að faðir minn hafði einhvern tíma orð á því að honum fyndist frá því hann var barn, að Gamlárskvöld væri ekki síður hátíðleg stund en jólin, – hvort þó með sínu sniði og þennan hátíðleika höfum við reynt að tileinka okkur á mínu heimili eins og svo margir aðrir. Hugurinn staldrar þá við það liðna; rifjaðar upp góðar og gleðilegar stundir og jafnframt renna fram í hugskotið þær sáru og viðkvæmu minningar, sem hjá mörgum eru því miður oft stórar og of margar. Þannig er þetta líf okkar og þessar tilfinningar gera okkur einmitt að þerri vitsmunaveru sem maðurinn er.

Með eftirvæntingu og gleði í huga fögnum við nýju ári. Hjá hverjum og einum eru stór verkefni til að takast á við hvort heldur það er í einkalífinu eða á öðrum vettvangi, sum þeirra eru í senn erfið og óumflýjanleg, önnur skemmtilegri þar sem við fáum meira að ráða för. Hjá Grafarholtssókn er bygging kirkjunnar hið stóra og mikla verkefni sem unnið verður að af krafti með það að markmiði að íbúar geti sótt sína eigin kirkju í hverfinu um næstu jól og áramót. Bið ég þess að öll sú framkvæmd megi ganga vel.

Ég óska Grafarholtsbúum sem og öðrum lesendum gleðilegs ár með kærum þökkum fyrir það liðna.

nál.