Sóknarnefnd Grafarholtssóknar ákvað á fundi sínum í nóvember að ráða djákna í hálft starf fyrir söfnuðinn frá áramótum. Sigurbjörg Þorgrímsdóttir hefur verið valin til starfans.

Sóknarnefnd Grafarholtssóknar ákvað á fundi sínum í nóvember að ráða djákna í hálft starf fyrir söfnuðinn frá áramótum. Sigurbjörg Þorgrímsdóttir hefur verið valin til starfans.

Í Grafarholtssöfnuði, sem nú telur 5300 manns, starfar einn prestur, organisti í 70% starfi, æskulýðsfulltrúi í 40% starfi og barnakórstjóri í 25% hlutfalli. Verkefni starfsfólksins eru nánast óþrjótandi í vaxandi söfnuði og taldi sóknarnefnd því nauðsynlegt að bæta við starfsfólki. Var einhugur um það í nefndinni að ráða og vígja djákna til 50% starfshlutfalls til reynslu í eitt ár. Starfssvið djáknans er hugsað bæði til kærleiksþjónustu og fræðslu. Þannig mun hinn nýi starfsmaður efla sálgæslu, sjálfboðaliðastarf, hjálp við þau sem búa við félagslega einangrun og erfið kjör í söfnuðinum, auk þess sem djákninn mun styrkja enn meir barnastarf safnaðarins.

Sóknarnefnd samþykkti að formaður gengi á fund biskups Íslands og legði til að Sigurbjörg Þorgrímsdóttir yrði ráðin sem djákni, en hún lauk djáknanámi til 90 eininga frá Háskóla Íslands síðasta vor. Biskup hefur tekið málaleitan sóknarnefndar vel og eru málin í góðum farvegi. Sigurbjörg er söfnuðinum að góðu kunn. Hún hefur sinnt margvíslegu sjálfboðaliða- og leiðtogastarfi í söfnuðinum, sérstaklega í sunnudagaskólanum og KFUM/KFUK-starfi. Sigurbjörg hefur starfað í sóknarnefnd frá upphafi safnaðarins 2003, fyrst sem varasóknarnefndarmaður og nú síðast sem aðalmaður og gjaldkeri. Hún er einnig bókari safnaðarins. Rétt er að taka fram að eftir að umræða hófst um hugsanlegan djákna í sóknarnefnd í haust hefur Sigurbjörg ævinlega vikið af fundi, þegar málið hefur verið á dagskrá.

Nánar verður sagt frá hinum nýja djákna og vígslu hans hér á síðunni á nýju ári.