Samkirkjuleg bænaganga kristinna trúfélaga gegn myrkrinu á Íslandi verður gengin frá Hallgrímskirkju kl. 14 á laugardaginn, 10. nóvember, og lýkur með bænastund á Austurvelli.

Samkirkjuleg bænaganga kristinna trúfélaga gegn myrkrinu á Íslandi verður gengin frá Hallgrímskirkju kl. 14 á laugardaginn, 10. nóvember, og lýkur með bænastund á Austurvelli.

Að göngunni standa Þjóðkirkjan og önnur, kristin trúfélög á Íslandi auk ýmissa félagasamtaka, hópa og einstaklinga. Markmið göngunnar er að biðja saman í einingu gegn myrkrinu og um leið vekja athygli á því, að Jesús Kristur er ljósið sem yfirvinnur myrkrið. Þá er gangan vettvangur til sameiningar fyrir alla kristna menn óháð trúfélögum. Meðal fulltrúa Þjóðkirkjunnar í undirbúningsnefnd viðburðarins er sr. Þorvaldur Víðisson, miðborgarprestur Dómkirkjunnar. Yfirskrift viðburðarins er fengin úr spádómsbók Jesaja í Gamla testamentinu, þar sem segir: Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós (Jes 9.1).

Dagskrá bænagöngunnar verður með þeim hætti, að safnast verður saman við Hallgrímskirkju kl. 14, þar sem m.a. sr. Jón Dalbú Hróbjartsson, prófastur, mun leiða bæn. Þá verður gengið niður á Austurvöll, þar sem dagskrá verður til kl. 16. Lúðrasveit Hjálpræðishersins leiðir þar söng, sr. Ólafur Jóhannsson segir nokkur orð um kristnina og áskorun til stjórnvalda verður lesin og afhent. Fulltrúar ýmissa trúfélaga taka síðan þátt í bænastund, sem hr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, mun ljúka. Lúðrasveitin leiðir að endingu viðstadda í þjóðsöngi Íslendinga.

Samdægurs fara fram samkirkjulegir bænatónleikar í Laugardalshöllinni og hefjast þeir kl. 18. Aðgangur er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir.

Kristnir menn í Grafarholti og annars staðar, hvar í trúflokkum sem þeir standa, eru hvattir til að sameinast í þessum merka viðburði, sýna samstöðu með öðrum kristnum mönnum á Íslandi og biðja með þeim þess, að ljós Jesú Krists yfirvinni allt myrkur í samfélaginu.