Í dag, mánudaginn 5. nóvember kl. 18-20:30, munu fermingarbörn næsta vors í Grafarholti ganga í öll hús í hverfinu og safna peningum fyrir brunnum í Afríku á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar.

Í dag, mánudaginn 5. nóvember kl. 18-20:30, munu fermingarbörn næsta vors í Grafarholti ganga í öll hús í hverfinu og safna peningum fyrir brunnum í Afríku á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar.

Síðustu vikuna í október fengu fermingarbörnin fræðslu um aðstæður krakka í Úganda. Þau þurfa mörg hver að vinna hörðum höndum til að eiga í sig og á og mörg börn hafa ekki aðgang að hreinu vatni. Við fræddumst um vatnsból og nauðsyn þess að geta drukkið hreint vatn.

Í dag, mánudaginn 5. nóvember ætla krakkarnir síðan að safna fyrir hreinu vatni. Þau munu ganga um hverfið milli kl. 18:00-20:30 með bauka merkta Hjálparstarfi kirkjunnar og biðja um aðstoð ykkar. Ætlunin er að nota söfnunarféð til að hjálpa þorpsbúum að byggja brunn, með því að leggja þeim til tækni og pumpu, en sjálf leggja þau til vinnuaflið. Einn brunnur kostar um 120.000 krónur og söfnuðu fermingarbörn síðasta árs fyrir um það bil einum og hálfum brunni.

Grafarholtsbúar: Tökum vel á móti fermingarkrökkunum í ár eins og í fyrra, þannig að einnig í ár berist Afríkubúum hlýjar kveðjur og hjálp frá íslensku úthverfi, sem býr við hreint vatn, heitt bæði og kalt!