Eins og flestum mun kunnugt eru byggingarframkvæmdir hafnar við kirkjuna. Jarðvegsskipti eru búin, byggingakrani og vinnuskúrar komnir upp og byrjað að slá upp fyrir undirstöðum.

Eins og flestum mun kunnugt eru byggingarframkvæmdir hafnar við kirkjuna. Jarðvegsskipti eru búin, byggingakrani og vinnuskúrar komnir upp og byrjað að slá upp fyrir undirstöðum.

Umsjónarmaður byggingarframkvæmda fyrir hönd sóknarinnar er Eiríkur Arnarsson tæknifræðingur hjá VSP. Ásamt honum sitja Stefán Ragnar Hjálmarsson formaður byggingarnefndar og Hreinn Ólafsson sem á sæti í byggingarnefnd kirkjunnar hönnunarfundi og fylgjast grannt með framkvæmdum. Mikil vinna hefur undanfarið farið í að hanna austurgluggann sem snúa mun út í altarisgarðinn, enda mikil nauðsyn að hann sé vel úr garði gerður. Tæknifræðingarnir okkar eru að leggja á sig mikla vinnu fyrir söfnuðinn og vinna verk sitt frábærlega.

Nýlega hefur byggingarnefnd kirkjunnar fengið fjóra aðila til að skila hugmyndum að altarisgarðinum, en þar sem austurgafl kirkjunnar er úr gleri og vísar út í lokaðan garð, þá virkar altarisgarðurinn eins og þrívíð altaristafla. Verður án efa áhugavert að vita hvernig hugmyndasmiðirnir fjórir útfæra garðinn og hvaða tillaga verður ofan á. Í upprunalegri tillögu arkitektanna að kirkjunni var gert ráð fyrir því að garðarnir myndu bera nöfn sem tengdust upprunalegri kristni í landinu og myndaði þannig tengsl við fyrstu kristni sem örnefni í hverfinu bera einnig vott um. Unnið verður með tillögu sóknarprests um það að garðarnir tveir beri nöfn fornra helgikvæða, Geisla frá tólftu öld og Lilju frá þeirri fjórtándu við útfærslu garðanna tveggja.

Hér á heimasíðunni munu næsta árið reglulega birtast fréttir og myndir af framgangi byggingarframkvæmda kirkjunnar.