Yfir 120 manns sóttu fjölskyldumessu í sal Ingunnarskóla á sunnudag, sem helguð var náttúruvernd og virðingu fyrir sköpunarverkinu.

Veðrið lék ekki beinlínis við kirkjugesti fyrir fjölskyldumessuna á sunnudag, 14. október, og varð því lítið úr fyrirhugaðri skrúðgöngu frá grenndargámum inn til „kirkju“ í skólanum. Nokkrir nýttu þó tækifærið og lögðu mjólkurfernur og dagblöð í gámana fyrir messuna og sýndu þannig með táknrænum hætti stuðning sinn við umhverfið.

Þrátt fyrir hráslagalegt veður úti fyrir var hlýtt inni í sal Ingunnarskóla og heppnaðist messan vel, en yfir 120 manns tóku þátt í henni, bæði börn og fullorðnir. Séra Sigríður Guðmarsdóttir þjónaði og sagði börnunum söguna af sköpun Guðs, og heiðursgestur messunnar, frú Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, hvatti bæði börn og fullorðna til að koma fram við sköpunarverkið af virðingu. Talaði hún m.a. um gildi endurvinnslu, að skilja ekki eftir rusl á víðavangi og að við gætum látið föt, bækur og dót „ganga aftur,“ það er að börn þyrftu ekki alltaf að fá allt nýtt. Hrafnhildur Ming, fimm ára gömul dóttir ráðherra, var henni til halds og trausts og hvíslaði í eyra mömmu sinnar margt það, sem hún þurfti að segja við söfnuðinn!

Barnakór Grafarholtssóknar söng í fyrsta skipti í vetur við athöfnina og var það jafnframt í fyrsta skipti, sem hann kom fram undir leiðsögn nýs stjórnanda, Gróu Hreinsdóttur. Sungu börnin eins og englar fyrir söfnuðinn og var einstaklega gaman að hlusta á þau. Þá lögðu stelpurnar í 9-12 ára starfi KFUK og kirkjunnar einnig sitt af mörkum, því að þær höfðu litað stóra og fallega mynd af sköpun Guðs, sem tók á móti fólki við inngang skólans. Eftir messuna var svo staldrað við, því að í litastundinni var á boðstólum kex og hreint vatn – hvað annað!

Sigríður Jósefsdóttir sóknarnefndarkona og Aðalsteinn D. Októsson meðhjálpari tóku bæði margar myndir í messunni og þær má skoða hér.