Barnakór og Kirkjukór Grafarholtssóknar eru nú komnir í fullan gang eftir sumarfrí, og má alltaf bæta við áhugasömum kórsöngvurum.

Barnakór Grafarholtssóknar er nú kominn á fullan snúning eftir sumarfríið og syngur í fyrsta skipti í vetur við fjölskyldumessu á “Græna daginn” 14. október. Barnakórstjórinn er Gróa Hreinsdóttir og er hún með tvær æfingar fyrir barnakórinn á miðvikudögum, kl. 14:30 í Sæmundarskóla og kl. 16 í Ingunnarskóla. Kórinn er opinn öllum börnum í 2.-5. bekk og upplagt að byrja núna svo að nýir meðlimir geti tekið þátt í Græna deginum með okkur. Kórinn kemur fram 3-4 sinnum á önn við fjölskyldumessur og fleiri tilefni.

Kirkjukór Grafarholtssóknar getur ávallt bætt við sig nýjum félögum, bæði körlum og konum á öllum aldri. Kirkjukórstjórinn er Hrönn Helgadóttir og æfir hún kórinn í salnum, Þórðarsveigi 3, öll þriðjudagskvöld kl. 19:30-21:30. Það má hafa samband við Hrönn í síma 557-9996, í GSM-síma 695-2703 eða á netfanginu hronnhelga@simnet.is, eða bara prófa að mæta næsta þriðjudag! Þetta er upplagt tækifæri til að kynnast nýju fólki og taka þátt í sívaxandi kirkjustarfi í Grafarholti. Kórinn syngur í messum 2-3 í mánuði og greiðir sóknarnefnd kórfélögum örlitla þóknun fyrir messurnar auk þess sem safnað er í ferðasjóð kórsins. Kórinn æfir einnig fyrir aðventukvöld og fleiri tilefni.