Níels Árni Lund, sóknarnefndarformaður Grafarholtssóknar, ræðir um misjafna aðstöðu til háskólanáms í pistli sínum í fréttabréfi safnaðarins í októbermánuði. Pistilinn má lesa með því að smella á “Áfram” hér að neðan.

Lát raddir þínar, æska lands vors, óma

í ungri gleði, nýjum söng.

Og til þess skal vor tunga endurhljóma

með tignum rómi um skólans göng,

að héðan megi íslenzkt bergmál bera

þau boð eins langt og mál vort nær,

að það, sem íslenzkt var, skal íslenzkt vera

og verða, meðan hjartað slær.

< ?xml:namespace prefix = o ns = "urn:schemas-microsoft-com:office:office" />

Og skólinn þig til þessa réttar vígi.

Vér þörfnumst aldrei meir en nú

þess æskulýðs, er nýjar dáðir drýgi

af drenglund, skyldurækni og trú.

Að leik og námi gakk því heill og glaður

og ger þér ljóst að þú ert sá,

er æ skalt verða meiri og betri maður

því meira sem þig reynir á.

Úr Skólaminni eftir Tómas Guðmundsson.

Hve oft heyrum við ekki að menntun sé undirstaða alls og að framtíð þjóðarinnar byggist á vel menntuðu fólki; mannauði sem standi í fremstu röð annarra þjóða hvað þekkingu varðar. Ég tek undir þetta heilshugar en vildi samt benda á atriði til að hugleiða. Við viljum fjármagn í góða skóla og sífellt aukast kröfur um enn betri og fullkomnari háskóla. Nemendur þar sækja á um betri lán og aðra fyrirgreiðslu til að geta lokið sínu mikilsverða námi; réttmætar kröfur sem samfélagið þarf að sinna ef vel á að vera. Mér finnst hins vegar við gleyma stundum stórum hópi sem alls ekki ræður við að fara í slíkt nám af fjárhagsástæðum einum saman, ekki síst eftir að kröfur um há skólagjöld liggja á borðinu. Ég fullyrði að fjölmargir sjá sér ekki fært að halda áfram námi eftir grunnskólapróf vegna fjárhagsörðugleika heima fyrir. Við heyrum um ótrúlega fátækt sumra í þjóðfélaginu og margir þeirra eiga börn. Haldið þið ekki að þau börn fái hvatningu heiman frá sér til að halda áfram í dýrt nám? Ég held varla. Í annan stað fullyrði ég að meðal þessara barna sem ekki eiga þess kost að mennta sig leynast margir sem gætu skarað fram úr í hvers konar vísindum og tækni ef þeim gæfist kostur á að mennta sig. Með örðum orðum; ég tel að íslensk þjóð missi af mörgum þeim tækifærum sem hún á í slíkum einstaklingum ef þeim er ekki komið til aðstoðar fyrr á skólagöngunni. Fyrr á árum voru það prestar, sýslumenn, kaupmenn og ríkir bændur sem komu auga á þessa einstaklinga, jafnvel munaðarlausa úr lágreistum kotum og kostuðu þá til mennta. Þeir veðjuðu á þá og ósjaldan urðu þessir menn síðar afgerandi þjóðinni mikilvægir við uppbyggingu hennar og framfarir allar.

Bólu-Hjálmar var e.t.v. dæmi um einstakling sem aldrei fékk að njóta sín og er ekki úr vegi að enda þetta spjall á landsfrægri stöku hans: Víða til þess vott ég fann,/ þótt venjist tíðar hinu, /að guð á margan gimstein þann, /sem glóir í mannsorpinu.

nál.