Mikil gleði ríkti við Reynisvatn að kvöldi þrettánda dags jóla, en Grafarholtssókn er meðal þeirra aðila sem standa í sameiningu að þrettándagleði í Grafarholti.

Mikil gleði ríkti við Reynisvatn að kvöldi þrettánda dags jóla, en Grafarholtssókn er meðal þeirra aðila sem standa í sameiningu að þrettándagleði í Grafarholti.

Lagt var af stað í blysför kl. 19 frá Ingunnarskóla og gengið undir kröftugu spili lúðrasveitarinnar niður brekkuna að Reynisvatni. Rigning var og þungt yfir en göngumenn létu suddann ekki á sig fá og brugðu blysum á loft af miklu harðfylgi. Gönguna leiddu Álfakóngur og Álfadrottning og fast á hæla þeirra álfar í litskrúðugum klæðum sem eru í leikhóp 8 ára barna í Guðríðarkirkju, “Leikandi Lærisveinar,” sem leiddur er af Laufeyju Brá Jónsdóttur, leikara og æskulýðsfulltrúa kirkjunnar. Eftir hressilegan söng og spil barna í Sæmundarskóla, tóku þeir Skyrgámur og Ketkrókur syrpu og síðan steig kirkjukórinn á stokk og leiddi fjöldasöng undir stjórn Hrannar Helgadóttur og við harmonikkuleik Guðmundar Samúelssonar. Samkomunni stjórnaði Guðmundur Arngrímsson formaður Íbúasamtaka Grafarholts.

Illa gekk að kveikja í brennunni í allri bleytunni, en það tókst að lokum. Flugeldasýningin í lokin var líka flott! Þrettándagleðin er samstarfsverkefni íbúasamtaka Grafarholts, Grafarholtssóknar, Lionsklúbbsins Úlfars, Fram, Foreldrafélaga grunnskólanna í hverfinu, Skátafélagsins Hamars og Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og er einkar gleðilegt hversu mörg félagasamtök og stofnanir í Grafarholti hafa tekið höndum saman um að gera hátíðina sem veglegasta.

Hér að neðan má sjá nokkra glaðbeitta álfa í kirkjunni að búa sig undir skrúðgönguna.