Söfnun fermingarbarna fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku gekk vel í Grafarholti og safnaðist fyrir rúmlega einum brunni, sem dugar allt að 1000 manns í marga áratugi.

Söfnun fermingarbarna fyrir vatnsverkefni Hjálparstarf kirkjunnar í Afríku gekk vel í Grafarholti og safnaðist fyrir rúmlega einum brunni, sem dugar 1000 manns í marga áratugi.

Það voru hátt í 40 krakkar, sem fermast næsta vor í Grafarholtssókn, sem skiptu með sér götum í hverfinu mánudaginn 5. nóvember sl. og gengu í hús með bauka frá Hjálparstarfi kirkjunnar. Krakkarnir höfðu áður fengið fræðslu í fermingartíma um starfsemi Hjálparstarfs kirkjunnar og um aðstæður barna í Afríku. Margir tóku krökkunum vel og söfnuðust alls 169.970 krónur, sem er aukning um 20 þúsund frá því í fyrra. Einn vatnsbrunnur í Malaví eða Mósambík, sem Hjálparstarfið stendur að í samstarfi við heimamenn, kostar um 150.000 krónur, og gáfu Grafhyltingar því rúmlega einn brunn! Það þýðir, að fyrir þessa upphæð fengu 1000 manns í Afríku aðgang að hreinu vatni í marga áratugi. – Fermingarbörn um allt land tóku þátt í þessari söfnun og söfnuðust alls á landsvísu hátt í 8 milljónir króna, sem er aukning um tæpa milljón á milli ára.

Fyrir þá, sem vilja leggja enn meira af mörkum, eða misstu af söfnun fermingarbarnanna, má minna á tvennt:

Nú er að hefjast árleg jólasöfnun Hjálparstarfsins sem einnig er sem fyrr helguð vatnsverkefnum í Afríku, enda ekki vanþörf á að tryggja mörgum til viðbótar aðgang að ómenguðu vatni. Gíróseðill upp á 2500 kr. hefur borist inn á heimilin, en einnig má greiða í heimabanka (reikningsnúmer: 1150-26-50886, kennitala 450670-0499, tilvísunarnúmer getur verið kennitala greiðanda + 00). Þá er hægt að greiða með kreditkorti á Netinu.

Nýlega var á vegum Hjálparstarfsins opnuð heimasíðan „Gjöf sem gefur“ en það er nýr og áhugaverður kostur fyrir fólk í gjafaleit, þar sem tækifæri gefst til að kaupa gjafabréf, ávísun á gjafir sem margfaldast í þróunarlöndunum. Þar verður hægt að kaupa hús fyrir munaðarlaus börn, gefa kamar, reiðhjól, kýr, geitur, kassa af smokkum og fleira sem getur breytt lífi fólks, staðháttum og heilsu – og líka leyst vandamálið um það, hvað á að gefa vinum og ættingjum sem „eiga allt“!

Að lokum minnum við á vef Hjálparstarfs kirkjunnar, help.is.