Fyrir nokkrum misserum voru sýndir norskir þættir í sjónvarpinu sem báru nafnið Himinblámi, eða Himmelblå. Þættirnir sögðu frá fjölskyldufólki sem fluttust til Ylfingseyjar við strendur Norður-Noregs og nutu mikilla vinsælda bæði í Noregi og á Íslandi. Eitt af því sem gerði þættina svo ljúfa og skemmtilega var stórbrotið landslagið sem prýddi þættina, fallegar fjölskrúðugar strendur, tignarleg fjöll og blómlegar sveitir iðandi af mannlífi. Þættirnir voru teknir upp í eyjaklösum og við strandlengju Suður-Hálogalands, sem er syðsta sveit Norður-Noregs, nokkurra klukkustunda keyrslu norðan við Þrándheim. Stærsti þéttbýlisstaður Suður-Hálogalands er Brunneyjarsund (Brønnøysund) og yfir hann gnæfir hið sérstaka fjall Torghatturinn, sem lítur út eins og Napóleonshattur með gati í miðjunni. Um Torghattinn orti 18. aldar skáldpresturinn Petter Dass:

Um fjórðung frá Brunney ég Torghattinn tel,
sem tröll meðal kletta hann sómir sér vel
og starir með ósofnu auga;
og betur sá Argus hinn eldforni síst
með augunum hundrað þó kynni hann víst
að sjá gegnum hæðir og hauga.

Því skaparinn hefur það samið og sett
að sjá skuli gat í þann víðfræga klett
og greiðlega gegnum það rofa;
í gatinu bjarmar af birtu og sól
og blessuðum fugluðum verður það skjól
og geitinni girnileg stofa.

(Petter Dass (1977) Norðurlands Trómet (Kristján Eldjárn þýddi), Helgafell 107-108).

Sveitarinnar í kringum Torghattinn er líka getið í Eglu. Þar sagt er frá Þórólfi Kveldúlfssyni föðurbróður Egils Skallagrímssonar sem bjó stórbúi á Torgum við Brunneyjarsund við himinbláma fyrir þúsund árum. Og nú háttar svo til að þann 12. júní s.l. bauð biskupsdæmisráð stiftisins mér stöðu sem prófastur á Suður-Hálogalandi með aðsetur á hinum fornu slóðum Kveldúlfssonar og með Torghattinn sem útsýni. Það er fátítt að útlendingur gegni yfirmannsstöðu í norsku kirkjunni og hefur líkast til aldrei gerst áður að einhver hafi hoppað inn í slíka stöðu án þess að hafa þjónað norsku kirkjunni áður sem prestur. Stöðuveitingin er mér því sannur heiður og við hjónin hlökkum til að takast á við nýjar og skemmtilegar áskoranir á nýjum stað, læra nýtt tungumál og setja okkur inn í aðstæður í menningu og kirkju sem er bæði lík og ólík hinni íslensku. Prófastsembættin í Noregi eru töluvert ólík íslensku prófastsembættunum að því leyti að norskir prófastar gegna stjórnunarhlutverki í fullu starfi, en bæta því ekki aukalega ofan á verkahring sinn sem prestar. Norsku prófastarnir eru yfirmenn prestanna og stjórna öllu þeirra starfi og samvinnu. Þessi nýja vinna gerir mér þannig kleift að þjálfa upp hjá mér nýja styrkleika á sviði stjórnunar, mannauðs, leiðtogafærni, stefnumótunarfærni og skipulagsfærni sem vonandi mun nýtast íslensku kirkjunni í framtíðinni þegar við snúum aftur til Íslands.

Það hefur verið einstaklega gefandi að taka þátt í frumkvöðlastarfi í Grafarholti og fá að ala upp börn í náttúruperlunni við rætur Úlfarsfellsins. Sú eða sá sem nýtur slíkra gæða hefur ekki vistaskipti án umhugsunar. Það er því ekki auðvelt að snúa til nýrra starfa, jafnvel þótt ný og spennandi verkefni séu í boði. Ég hef starfað í Grafarholti sem sóknarprestur í áratug og tekið þátt í því með góðu fólki að byggja upp söfnuð, glæsilega kirkju og kraftmikið starf með góðu starfsfólki og sjálfboðaliðum sem ég er innilega þakklát fyrir. Ég hef fengið leyfi frá störfum í eitt ár og verður afleysingastaðan auglýst innan skamms. Ekki hefur verið gengið frá því hvenær nákvæmlega við förum, en ég á ekki von á því að þessi breyting á högum okkar hafi áhrif á þau embættisverk sem ég hef tekið að mér fyrir sóknarbörnin í sumar. Grafhyltingum og Úlfdælum þakka ég kærlega fyrir frábær ár í holtinu og dalnum, sem hafa styrkt mig og eflt sem prest.

Í þáttunum um himinblámann, kallaði stórbrotin náttúra Suður Hálogalands á borgarbúana. Og ég vona að bláminn taki vel á móti afkomendum Egils Skallagrímssonar sem vitja Torghattsins í haust eins og frændinn frægi. Megi þar bjarma af birtu og sól og heima í holtinu líka.

Kær kveðja, Sigríður

Greinin birtist líka í Grafarholtsblaðinu 12. júní 2014

Myndin sýnir Torghattinn og var tekin af þessari síðu:

Torghatturinn