Fullveldisdagurinn 1.desember kl. 16: Tré, Jólasveinn, kakó og jólamarkaður

 

Kveikt hefur verið á jólatrénu á kirkjulóðinni þann 1. desember allar götur frá árinu 2005 og smám saman hefur dagskráin undið upp á sig. Í fyrra plöntuðum við grenitré á kirkjulóðinni, sem hefur stækkað eins og börnin sem dansa í kringum það. Við byrjum á að dansa kringum tréð og syngja jólalögin, síðan kemur jólasveinninn og heimsækir okkur. Þá mun foreldrafélag Ingunnarskóla bjóða börnum og foreldrum upp á heitt kakó og piparkökur og jólamarkaður verður haldinn í safnaðarsalnum. Allir sem standa í fjáröflun, eru að selja handavinnu eða eitthvað annað skemmtilegt í hverfinu eru velkomnir, en gott er að hringja í kirkjuvörðinn fyrir fram og láta taka frá borð fyrir sig. Bókamarkaður kirkjunnar verður auðvitað með sölu, en hver bók kostar 500 krónur. Bókamarkaður Guðríðarkirkju heldur uppi líknarsjóð kirkjunnar sem styrkir þau í hverfinu sem þurfa mataraðstoð fyrir jólin.