Fermingarkrakkarnir í Grafarholti og Úlfarsárdal tóku þátt í vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar og gengu í hús í hverfinu í gærkvöldi. Um landssöfnun fermingarbarna má lesa nánar hér. Krakkarnir létu sér hvergi bregða þrátt fyrir rigningu og rok og söfnuðu af miklu harðfylgi. Alls söfnuðust 175,684 krónur þetta blauta nóvemberkvöld, en sú upphæð nægir til að fjármagna einn og hálfan brunn á þurrkasvæðum í Austur Afríku. Fermingarkrakkarnir hafa hliotið fræðslu um hjálparstarf og þau vita hversu mikill tími fer hjá jafnöldrum þeirra í að bera vatn heim í hús. Þau vita líka hversu lífsnauðsynlegt það er að hafa aðgang að fersku vatni og að þau gæði eru ekki sjálfsögð í Afríku. Allir krakkarnir voru búin að undirbúa sig vel með það sem þau ætluðu að segja þegar einhver kæmi til dyra. Kveðjan átti að hljóða eitthvað á þessa leið:  „Við erum fermingarkrakkar í Guðríðarkirkju sem erum að safna fyrir brunnum í Afríku.“ Einhverjir rugluðust hins vegar og sögðust vera fermingarstrákar frá Afríku, sem vakti mikla kátínu. Við erum öll eins í Úganda og Grafarholtinu og það er gott að vita að við getum breytt heiminum hvert og eitt. Takk krakkar fyrir vinnuna ykkar og takk gjöfula fólk í Grafarholti og Úlfarsárdal sem gáfuð einn og hálfan brunn í bauka fermingarbarna.

Myndin er tekin af heimasíðu Hjálparstarfsins og sýnir ungling í Afríku sem hefur aðgang að hreinu vatni.