Guðmundur Sveinbjörn Brynjólfsson verður djákni í Guðríðarkirkju

//Guðmundur Sveinbjörn Brynjólfsson verður djákni í Guðríðarkirkju

Sóknarnefnd Guðríðarkirkju hefur ráðið djákna í 50% starfi til starfa við kirkjuna. Í starfið var ráðinn Guðmundur Sveinbjörn Brynjólfsson.

Guðmundur er fæddur árið 1964. Hann lauk MA gráðu í almennri bókmenntafræði í ár, prófi í djáknafræðum ásamt starfsþjálfun 2007 frá Háskóla Íslands og MA í leiklistarfræðum frá Royal Holloway, University of London árið 1994.  Í starfsþjálfun sinni lagði Guðmundur sérstaka áherslu á forvarnir og vímuvarnir. Hann hefur starfað sem kennari við háskóla og framhaldsskóla, unnið sem dramatúrg í leikhúsi og verið með leiklistar- og framsagnarnámskeið fyrir börn og unglinga um margra ára skeið. Hann hefur einnig starfað sem kirkjuvörður og meðhjálpari í Hóladómkirkju.

Guðmundur er afkastamikill rithöfundur og hefur einnig skrifað barna- og fjölskylduleikrit. Bók Guðmundar “Þvílík vika” hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2009 og hann var tilnefndur til Grímuverðlaunanna 2010 í flokknum “Barnasýning ársins” fyrir leikritið “Horn á höfði” ásamt meðhöfundinum Bergi Þór Ingólfssyni. Guðmundur heldur úti heimasíðu og hefur góða þekkingu á veraldarvefnum.

Verkefni hins nýja djákna verður að starfa með börnum, unglingum og eldri borgurum í sókninni, auk þess sem hann annast miðlun á samfélagsmiðlum og heimasíðu, skráningu, stjórnun og leiðtogaþjálfun á þessu sviði.

Biskup vígir hinn nýja djákna til starfa innan skamms.

 

By |2017-03-17T21:08:25+00:0012. september 2012 | 18:18|