Bækur fyrir líf

//Bækur fyrir líf

Undanfarið ár hefur bókamarkaður verið starfræktur í Guðríðarkirkju. Bókunum hefur nú verið komið fyrir í hillum í suðvesturhluta kirkjunnar við prestsskrifstofuna. Þar eru samankomnir um 1300 bækur um aðskiljanlegustu efni, bækur þjóðlegs fróðleiks, skáldsögur, ljóð og sögur, andakt, barnabækur, kiljur, harðspjaldabækur, bækur á ensku, dönsku og fleiri tungumálum.  Allt eru þetta kjörgripir sem velunnarar kirkjunnar hafa gefið henni til styrktar líknarsjóðnum. Stór bókagjöf barst kirkjunni á sumardaginn fyrsta þegar Jóhanna Stefánsdóttir í Kópavogi gaf fagrar bækur úr safni þeirra hjóna, hennar og Óttars heitis Kjartanssonar. Kunnum við Jóhönnu og öðrum þeim sem gefa okkur bækur bestu þakkir fyrir.

Bókamarkaður Guðríðarkirkju er bakhjarl Líknarsjóðs Guðríðarkirkju, en hann er notaður til hjálpar íbúum í Grafarholti, sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda. Nú eru skólar að hefjast aftur eftir sumarfrí og það eiga ekki allar fjölskyldur fyrir ritföngum, skólavörum og vetrarfötum fyrir börnin. Framlög í sjóðinn eru því sérlega vel þegin núna. Reikningur líknarsjóðsins er 0114-26-3060 og kennitala kirkjunnar er 660104-3050.

Bókamarkaðurinn er opinn á opnunartíma kirkjunnar, þri-fö frá 10-12 og eftir messur. Það er lyftistöng fyrir hverfið okkar að þar skuli vera starfandi bókabúð með notaðar bækur og upplagt að góðar bækur fyrir lítið fé. Hver segir að afmælisgjafabækur eða að kiljurnar sem við lesum okkur til dægrastyttingar þurfi endilega að vera nýjar? Hver bók kostar 500 krónur. Allar bækur eru þakksamlega þegnar. Og svo er bara að koma og gleyma sér litla stund á markaðinum og drekka kaffi í Guðríðarkirkju. Verið velkomin á bókamarkaðinn!

Greinin birtist fyrst í Grafarholtsblaðinu í byrjun september

 

By |2017-03-17T21:08:29+00:007. september 2012 | 14:15|