Mosfellingar og Kjalnesingar safna fyrir orgeli í Guðríðarkirkju

Í Mosfellsbæ og á Kjalarnesi er mikið tónlistarlíf og hafa margir kóranna gert Guðríðarkirkju að sínum aðaltónleikasal. Þessir nágrannar okkar í norðri hafa nú ákveðið að sýna okkur í Grafarholtinu þann einstaka vinargreiða að standa fyrir styrktartónleikum í Guðríðarkirkju til styrktar orgeli kirkjunnar. Tónleikarnir verða haldnir 27. febrúar kl. 16 og þeir kórar sem taka þátt eru Álafosskórinn, Barnakór yngrideilda Lágafells og Varmárskóla, Kvennakórinn Heklurnar, Kammerkór Mosfellsbæjar, Karlakór Kjalnesinga , kirkjukór Mosfellsbæjar, Mosfellskórinn, Reykjalundarkórinn, Kór leikskólakennara í Mosfellsbæ, Skólakór Varmárskóla, Karlakórinn Stefnir og Vorboðarnir, kór aldraðra í Mosfellsbæ. Fjölmennum og styrkjum orgelkaupin!

Hægt er að styrkja orgelkaupin á marga vegu. Ein er sú leið að sækja styrktartónleika eins og þá sem framundan eru 27. febrúar. Svo er líka hægt að hringja í söfnunarsímann 903 3030, en við það er verkefnið styrkt sjálfkrafa um 3000 krónur. Svo er hægt að kaupa orgelpípu hjá kirkjuverðinum í Guðríðarkirkju, eða setja pening í baukinn okkar eftir messu. Stuðningur þinn við orgelsmíðina er vel þegin og hjálpar til við listsköpun í Grafarholti, varðveislu sérþekkingar í landinu, flutning kirkjulegrar tónlistar, eflingu helgihaldsins í Grafarholti og atvinnusköpun.

 

 

By | 2011-02-09T14:01:33+00:00 9. febrúar 2011 | 14:01|