Guðríðarkirkja stendur fyrir bleikum degi á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars, með messu, súpu og róttæku femínísku hinsegin örþingi í minningu argentínska frelsunar-, kvenna-, hinsegin-, póstkólóníalguðfræðingsins Marcellu Althaus-Reid.

Guðríðarkirkja stendur fyrir bleikum degi á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars, með messu, súpu og róttæku femínísku hinsegin örþingi í minningu argentínska frelsunar-, kvenna-, hinsegin-, póstkólóníalguðfræðingsins Marcellu Althaus-Reid (1952-2009) sem lést 20. febrúar s.l. Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir lektor í femínískri siðfræði við Háskóla Íslands prédikar, dr. Sigríður Guðmarsdóttir og sr. Sigrún Óskarsdóttir þjóna fyrir altari í messunni sem hefst kl. 11. Fluttar verða bænir sem kristnar konur frá Papúu, Nýju Gíneu hafa samið. Allir sálmarnir sem sungnir verða í messunni eru annað hvort ortir eða þýddir af konum. Boðið verður upp á súpu og brauð og þvínæst hefst örþing kl. 13 í safnaðarsal Guðríðarkirkju:

Gunnbjörg Óladóttir doktorsnemi í trúarbragðafræðum: segir frá Marcellu Althaus-Reid, en Gunnbjörg sótti tíma hjá henni við háskólann í Edinborg.
Dr. Sigríður Guðmarsdóttir fjallar um bókina „Indecent Theology“ sem Althaus-Reid gaf út árið 2000.
Ingibjörg Gísladóttir, M.A. í femínískri guðfræði fjallar um bók Althaus-Reid „The Queer God“ frá 2003.
Fundarstjóri er Laufey Brá Jónsdóttir.

Aþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti í heiminum er 8. mars. A baráttudeginum fagna konur efnahagslegum, félagslegum og stjórnmálalegum umbótum í átt til jafnréttis og stilla saman strengi til að vinna saman að frekari réttlætismálum. Baráttudagurinn á sér sérstaka heimasíðu á heimsvísu: http://www.internationalwomensday.com. Alþjóðlegur bænadagur kvenna hefur verið árviss viðburður innan kristinna safnaða á Íslandi í á fimmta áratug. Hann er jafnan haldinn fyrsta föstudag í mars, um svipað leyti og hinn alþjóðlegi baráttudagur. Tilgangur bænadagsins er að koma saman til að biðja fyrir konum í mismunandi löndum og fræðast um aðstæður þeirra. Í ár ber alþjóðlegan baráttudag kvenna upp á sunnudag. Verða því þessir tveir alþjóðlegu kvennadagar sameinaðir í helgihaldi Guðríðarkirkju að þessu sinni og aðstæðna kvenna sérstaklega minnst.