Verkefnið „Jól í skókassa,“ sem miðar að því að færa fátækum börnum í Úkraínu jólagjafir frá Íslandi, stendur nú sem hæst. Krakkarnir í starfi KFUM og KFUK í Grafarholtssókn taka þátt í verkefninu.

Verkefnið „Jól í skókassa,“ sem miðar að því að færa fátækum börnum í Úkraínu jólagjafir frá Íslandi, stendur nú sem hæst. Krakkarnir í starfi KFUM og KFUK í Grafarholtssókn taka þátt í verkefninu.

Frá árinu 2004 hefur hópur ungs fólks innan KFUM & KFUK á Íslandi tekið þátt í alþjóðlegu verkefni undir heitinu „Jól í skókassa,“ sem hefur það að markmiði sínu að færa kærleika og ljós Jesú Krists á jólunum til barna í einu fátækasta ríki Evrópu, Úkraínu. Aðferðin sem notuð er felst í því, að þátttakendur setja jólagjafirnar til úkraínsku barnanna niður í opnanlega skókassa, pakka þeim inn (kassa og loki sitt í hvoru lagi) og afhenda í aðalstöðvum KFUM & KFUK á Íslandi, Holtavegi 28 í Reykjavík, í síðasta lagi laugardaginn 3. nóvember nk. Þaðan fara pakkarnir til Úkraínu, þangað sem þeir verða komnir fyrir jól, og er dreift á munaðarleysingjahælum og víðar þar sem þörfin er fyrir hendi. Og þörfin er svo sannarlega til staðar víða í Úkraínu, raunar miklu víðar en hægt er að sinna, því að þó að gæði landsins séu mikil er misskipting þeirra gífurleg og fátæktin því óskaplega mikil hjá mjög stórum hluta íbúanna.

Krakkarnir í KFUM og KFUK starfinu í Grafarholti ætla að taka þátt í verkefninu, bæði strákadeildin og stelpudeildin, á fundunum kl. 17:15 á fimmtudaginn (25. okt.) í Ingunnarskóla. Krakkarnir fá aðstoð hjá foreldrum sínum til að finna gjafir fyrir úkraínsku börnin og koma með gjafirnar sínar á fimmtudaginn ásamt 300-500 kr. sendingargjaldi. Skóbúðin í Grafarholti, Toppskórinn við Vínlandsleið, leggur okkur til tóma skókassa, sem krakkarnir fá að skreyta og geta jafnvel skrifað jólabréf eða teiknað myndir til viðtakenda pakkanna. Þeir sem hafa tök á eru þó einnig hvattir til að koma með tilbúna skókassa á fundinn og geta þá hjálpað hinum að föndra sína kassa. Auðvitað er líka skemmtilegt ef öll fjölskyldan vill sameinast í að búa til skókassana, og leiðtogarnir í KFUM og KFUK geta einnig tekið á móti skókössum frá t.d. yngri systkinum. Allir geta reyndar gert kassa og skilað í sunnudagaskólanum næsta sunnudag, eða beint á Holtaveginn.

Athugið: Í því skyni að allar gjafirnar verði sem veglegastar, óska aðstandendur verkefnisins eftir því, að í alla kassana sé gefinn a.m.k. einn hlutur úr eftirtöldum flokkum: leikföng, sælgæti, skóladót (t.d. blöð, blýantar eða litabækur), hreinlætisvörur (gjarnan tannbursti og tannkrem) og föt (t.d. húfa eða sokkar). Eftirtalda hluti má alls ekki setja í kassana: mikið notaða og/eða illa farna hluti, tyggjó, spilastokka, stríðsdót, matvöru, lyf, vökva og brothætta hluti.

Allar upplýsingar um verkefnið, það sem fara á í kassana og annað, má finna á heimasíðu verkefnisins með því að smella hér.