Barnastarfið hefst 9. september kl. 11

//Barnastarfið hefst 9. september kl. 11

Næstkomandi sunnudag, 9. september, hefst barnastarf Grafarholtssóknar í vetur með fjölskyldumessu fyrir alla aldurshópa. Stundin verður í sal Ingunnarskóla og hefst hún kl. 11.

Það verður glatt á hjalla í sunnudagaskólanum í Grafarholtinu í vetur. Hann verður, eins og síðasta vetur, alla sunnudaga kl. 11 í sal Ingunnarskóla. Í sunnudagaskólanum heyrum við biblíusögu með myndum, syngjum mikið og hreyfum okkur, brúðurnar koma í heimsókn og við lærum að biðja til Guðs, sem vakir yfir okkur. Við fáum nýja kirkjubók um Danna og Birtu og í hvert skipti sem við mætum fáum við nýjan límmiða í bókina. Eftir helgistundina litum við biblíumyndir og fáum okkur safa og kex.

Annan sunnudag í mánuði renna sunnudagaskólinn og messan svo saman í fjölskyldumessu, sem er einföld en hátíðleg stund fyrir alla aldurshópa. Fyrsta fjölskyldumessa vetrarins markar upphaf barnastarfsins í vetur og hefst hún kl. 11 á sunnudaginn, 9. september, í Ingunnarskóla. Prestur er séra Sigríður Guðmarsdóttir, Gróa Hreinsdóttir leikur á píanó. Sunnudagaskólaleiðtogarnir María Gunnlaugsdóttir og Þorgeir Arason taka einnig þátt í stundinni. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Vakin er athygli á nýjum vef sunnudagaskólastarfsins, sem opnaður var á vegum Þjóðkirkjunnar nú í september.

By |2007-09-07T10:31:27+00:007. september 2007 | 10:31|