Í næstu viku hefur göngu sína nýr liður safnaðarstarfs Grafarholtssóknar, kirkjustarf fyrir sex ára börn undir heitinu „Litlir lærisveinar“ og verða samverurnar á þriðjudögum kl. 15:00-15:45. Starfið verður opið öllum börnum í 1. bekk en verður í samstarfi við Fjósið, frístundaheimili Sæmundarskóla.

„Litlu lærisveinarnir“ munu hittast einu sinni í viku, á þriðjudögum kl. 15:00-15:45 í sal Sæmundarskóla. (Fyrsta samveran verður 11. september.) Litlu lærisveinarnir ætla að syngja saman, hlusta á biblíusögu, læra bænir, lita biblíumyndir, fara í leiki og fleira. Með þessu vill kirkjan í hverfinu bjóða yngstu grunnskólabörnunum upp á uppbyggilega og rólega samverustund eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur. Umsjónarmenn starfsins verða æskulýðsfulltrúi safnaðarins, Þorgeir Arason guðfræði- og kennaranemi, og Sigríður Ásta Vigfúsdóttir, nemi í uppeldis- og menntunarfræði.

Öllum börnum í 1. bekk í Grafarholti stendur til boða að taka þátt í Litlu lærisveinunum sér að kostnaðarlausu, líka þeim sem ekki hafa pláss í Fjósinu. (Tekið er á móti börnum sem koma ekki úr Fjósinu við inngang 1. bekkjar í Sæmundarskóla.) Athugið að nauðsynlegt er að skrá öll börn sem vilja taka þátt, einnig börnin í Fjósinu. Ekkert barn tekur þátt nema samþykki foreldra liggi fyrir. Skráningareyðublaðið má finna hér. Því má hlaða niður (Word-skjal), fylla út og annaðhvort prenta út og skila til umsjónarmanna Fjóssins (Sólveig Elíasdóttir/Valeriya Zach) eða með rafpósti til Þorgeirs: thorgeir (hjá) grafarholt.is. Börn í 1. bekk í Sæmundarskóla fá einnig skráningarblað með sér heim úr skólanum.